Innlent

Mótmæla harðlega hækkun á strætófargjöldum

MYND/GVA
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra í umhverfisráði mótmæla harðlega hækkunum á fargjöldum Strætós um allt að 33 prósent og segja þær ganga í berhögg við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla almenningssamgöngur með það markmið að bæta umhverfi, heilsu og borgarbrag.

Í tilkynningu frá fulltrúunum kemur fram að hækkanirnar bitni á þeim sem síst skyldi, fólki sem velji umhverfisvænan samgöngumáta. Stjórn Strætó bs. skýli sér á bak við það að lækka staðgreiðslugjald unglinga, 12-18 ára, niður í 100 kr. sem sé afar jákvæð aðgerð en það sé þó gert með því að hækka staðgreiðslugjald barna yngri en 12 ára um 33 prósent eða úr 75 kr. í 100 kr.

Engin rök fylgi hækkununum enda séu þær a.m.k. tvöfalt meiri en verðbólguspá fyrir árið 2007. Á sama tíma hafi framlög Reykjavíkur til Strætós verið lækkuð við afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem lýsi metnaðarleysi gagnvart þessum mikilvæga málaflokki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×