Innlent

Stál í stál á Alþingi Íslendinga

Deilur héldu áfram á Alþingi í dag þegar það kom saman klukkan hálfellefu. Þar var forseti þingsins sakaður um að virða ekki lög og hefðir þingsins til þess eins að koma frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. í gengum þingið.

Fjölmargir þingmenn úr stjórnarandstöðu tóku til máls um störf þingsins og bentu á að þeir hefðu óskað eftir utandagskrárumræðum, meðal annars um málefni Byrgisins, en forseti þingsins hefði ekki orðið við því. Þá lægju fyrir allt að fjögurra mánaða gamlar fyrirspurnir sem ráðherrar ættu eftir að svara.

Birgir Ármannsson, starfandi forseti þingsins, neitaði því að lög hefðu ekki verið virt, og benti á að forseti þingsins færi með dagskrárvald þess. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, benti þá á að breyta þyrfti þingsköpum og láta forsætisnefnd alla hafa dagskrárvald þar sem forseti gæti ekki ráðið við það.

Þegar tíma sem ætlaður er til umræðna um störf þingsins lauk tóku stjórnarandstöðuþingmenn upp umræður undir liðnum Um fundarstjórn forseta og ítekuðu kröfu sína um að öðrum þingstörfum yrði ekki vikið til hliðar á meðan rætt væri um RÚV-frumvarpið.

Deildu stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar um það hvort samkomulag sem gert var fyrir jól kvæði á um það að ekkert annað mál yrði tekið fyrir fyrr en frumvarpið um RÚV hefði verið samþykkt. Þurfti forseti þingsins ítrekað að biðja þingmenn að gæta orða sinna í umræðunni.

Upplýst var við umræðuna að fundur hefði verið boðaður í fjárlaganefnd klukkann 8.30 í fyrramálið þar sem ræða á málefni Byrgisins.

Þriðja umræða um frumvarp um Ríkisútvarpið stóð til miðnættis í gær og heldur áfram í dag en ekki liggur fyrir hvenær henni lýkur enda fjölmargir enn á mælendaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×