Innlent

Kolsvört skýrsla um Byrgið - Ríkisendurskoðun vill senda málið til saksóknara

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður, sagðist í dag ætla að loka Byrginu.
Guðmundur Jónsson, forstöðumaður, sagðist í dag ætla að loka Byrginu. MYND/Gunnar A
Fjármálaumsýslu og bókhaldi Byrgisins er verulega ábótavant að mati Ríksendurskoðunar sem skilað hefur skýrslu sinni sem unnin var að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki rétt að ríkissjóður haldi áfram að veita fjármunum til starfsemi Byrgisins vegna þeirra alvarlegu vankanta sem verið hafa á rekstri félagsins og lagt er til að málinu verði vísað til embættis Ríkissaksóknara.

Fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar að fjármálaumsýslu og bókhaldi Byrgisins sé verulega ábótavant, m.a. vegna þess að innheimtar tekjur hafi ekki verið bókaðar og kostnaður er færður til gjalda án fullnægjandi fylgiskjala, kostnaður er ranglega bókfærður eða afar hæpið að hann tilheyri starfsemi Byrgisins.

Þá segir í niðurstöðunum að stjórnendur Byrgisins eigi eftir að gera fullnægjandi grein fyrir ráðstöfun á söfnunarfé og vistgjöldum sem ekki voru færð í bókhald Byrgisins, samtals að upphæð ríflega 22 milljónir króna á árunum 2005 og 2006.

Þá liggi fyrir að fjármunir sem sannanlega hafi runnið til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins séu langt umfram það sem fram komi í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Greiðslur sem færðar hafi verið á launareikninga stjórnenda og annarra starfsmanna Byrgisins árið 2005 að fjárhæð 12,7 milljónir króna og voru greiddar þeim eða aðilum þeim tengdum séu ranglega tilgreindar í bókhaldi og ársreikningi Byrgisins en þar er launakostnaður aðeins sagður vera 5,5 milljónir króna. Þá liggi fyrir að þessar greiðslur hafi ekki verið taldar fram til skatts af hálfu Byrgisins.

Þessu til viðbótar sé svo að sjá sem stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem félaginu eru óviðkomandi og telja verði einkaútgjöld þeirra sjálfra. Slík útgjöld nemi a.m.k. 12,5 milljónum króna árið 2005 og 3,1 milljón tímabilið janúar til október 2006 en gætu allt eins verið miklu hærri. Loks verði að telja að kostnaður félagsins vegna aksturs sé óeðlilega mikill með tilliti til starfseminnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×