Innlent

Tekist á um skiptingu norsk-íslenska síldarstofnsins

Um borð í Þorsteini Vilhelmssyni.
Um borð í Þorsteini Vilhelmssyni.

Enn ein samningalotan um skiptingu norsk-íslenska síldarstofnsins hófst í Osló í gærkvöldi en veiðarnar eru orðnar stjórnlausar og eru taldar stefna stofninum í hættu.

Norðmenn vilja sífellt stærri hluta kökunnar. Líkt og í viðræðunum í desember krefjast þeir nú að minnstakosti 65 prósenta hlutdeildar í veiðistofninum, mest á kostnað Íslendinga, eða talsvert hærra hlutfalls en þeir höfðu á meðan samkomulag ríkti um veiðarnar en þá höfðu þeir 57 prósent og Íslendingar fimmtán og hálft. Það samkomulag rufu Norðmenn í hitt í fyrra, þannig að Rússar, Færeyingar, Íslendingar og Evrópusambandið telja sig óbundin af samkomulaginu. Þetta hefur haft þau áhrif að í fyrra fóru heildarveiðarnar heilum 30 prósentum framúr því hámarki sem vísindamenn töldu ráðlegt til að stefna stofninum ekki í hættu.

Þetta er sami stofninn og bar uppi síldarævintýrið mikla hér við land á sjöunda áratug síðustu aldar en hrundi svo vegna ofveiði. Síðan hefur hann hægt og bítandi verið að ná sér á strik og ganga í auknum mæli inn í íslenska lögsögu á ný. Miklir íslenskir hagsmunir eru því í húfi að stofninn verði ekki aftur ofveiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×