Innlent

Ísraelar stækka stærstu landnemabyggðina á Vesturbakkanum

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels. MYND/AP

Ísraelar hafa tilkynnt um stækkun landnemabyggðar á Vestubakkanum á sama tíma og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á ferð um Miðausturlönd til þess að reyna að koma á friði milli Ísraela og Palestínumanna.

Fram kemur á fréttavef AFP-fréttastofunnar að íbúðaráðuneyti Ísraels hafi boðið út byggingu 44 húsa í stærstu landnemabyggðinni á Vesturbakkanum, Maale Adumim.

Saeb Erakat, aðalsamningamaður Palestínumanna, mótmælti þessum hugmyndum og sagði að Ísraelar yrðu að velja á milli friðar og stækkunar landnemabyggða því ekki væri hægt að fá hvort tveggja. „Þetta grefur undan áformum alþjóðasamfélagsins og Rice utanríkisráðherra um að koma á friði," sagði Erakat.

Rice er á ferð um Miðausturlönd til þess að reyna að blása lífi í Vegvísinn til friðar sem Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar sömdu fyrir um fjórum árum, en samkvæmt honum eiga Ísraelar að hætta öllu landnámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×