Innlent

Óku réttindalausir og brutust inn í skóla

Lögreglan biður alla þá sem hafa orðið varir við bílaumferð á Skeiðavegi við Brautarholt seint á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudagsins að hafa samband í síma 480 1010.
Lögreglan biður alla þá sem hafa orðið varir við bílaumferð á Skeiðavegi við Brautarholt seint á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudagsins að hafa samband í síma 480 1010. MYND/Guðmundur

Lögreglan á Selfossi hefur handtekið tvo fimmtán og sextán ára pilta vegna innbrota í tvo skóla. Brotist var inn í Gaulverjabæjarskóla í Flóa og Þjórsárskóla í Brautarholti á Skeiðum aðfaranótt miðvikudagsins.

Í Gaulverjabæjarskóla var stolið fimm fartölvum en í Þjórsárskóla einni fartölvu, myndavél og geislaspilara. Nokkuð tjón var einnig unnið bæði innan- og utandyra í Þjórsárskóla. Lögreglunni bárust upplýsingar um að reynt hafi verið að senda fjórar ferðatölvur með DHL hraðsendingu frá Reykjavík til Spánar og komst þannig á spor drengjanna.

Piltarnir hafa viðurkennt að hafa stolið bíl í Reykjavík og ekið honum réttindalausir að Gaulverjaskóla þar sem þeir brutust inn og stálu ferðatölvum. 

Yngri drengurinn var fyrir jól handtekinn á Selfossi vegna innbrots. Drengirnir neita að hafa brotist inn í skólann í Brautarholti. Lögreglan biður alla þá sem hafa orðið varir við bílaumferð á Skeiðavegi við Brautarholt og eða óeðlilega umferð við skólann seint á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudagsins að hafa samband í síma 480-1010. 

Drengirnir eiga von á ákæru vegna brotanna og mál þeirra verð einnig tekin fyrir hjá barnaverndarnefndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×