Innlent

Farsímasamband á öllum Hringveginum eftir ár

Farsímakerfið verður jafnframt bætt á fimm fjallvegum landsins.
Farsímakerfið verður jafnframt bætt á fimm fjallvegum landsins. MYND/Gunnar

Farsímasamband verður á öllum Hringveginum eftir eitt ár. Fjarskiptasjóður og Síminn skrifuðu í dag undir samkomulag um að Síminn taki að sér verkefni við uppbyggingu GSM-farsímakerfisins.

Samið var við Símann á grundvelli frávikstilboðs og var endanleg samningsupphæð 565 milljónir króna en þrjú tilboð bárust í lokuðu útboði að undangengnu forvali. Tvö tilboð frá Símanum, eitt uppá 598 milljónir króna og frávikstilboð uppá 535 milljónir, og eitt frá Og fjarskiptum ehf. uppá 669 milljónir.  

Verkefnið snýst um að ljúka GSM-væðingu Hringvegarins en á veginum eru nokkrir mislangir kaflar án farsímasambands. Sá lengsti er 80 kílómetrar á Möðrudalsöræfum. Farsímakerfið verður jafnframt bætt á fimm fjallvegum það er á Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Fagradal og Fjarðarheiði. Alls verður farsímasamband bætt á um 500 kílómetra vegalengd á þessum vegum öllum. Með í útboðinu er einnig uppsetning á sendi í Flatey á Breiðafirði. Sendirinn nær til um helmings vegarins um Barðaströnd en þar nýtur farsímaþjónustu ekki við í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×