Innlent

Sveitarfélögin fari varlega í að ryðja burt skógræktarsvæðum

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verða að íhuga það mjög vel hvort það sé þess virði að ryðja burt skógræktarsvæðum til að fá nýtt byggingarland. Þetta segir bæjarstjórinn í Garðabæ, Gunnar Einarsson, sem jafnframt er formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa allt frá árinu 1990 haft með sér samstarf um að rækta upp græna trefilinn en svo nefnist samfellt skógarsvæði sem þau vonast til að vaxi upp á næstu áratugum. Hefur yfir fimm milljónum trjáa verið plantað í þessu skyni. Skógræktarmenn óttast nú að jarðýtur ryðji burt trjám til að unnt verði að bjóða upp á fleiri byggingarlóðir.

Gunnar bendir á að samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eigi nú í viðræðum við skógræktarfélögin um hvernig megi vernda græna trefilinn enn betur, en hann er þegar inni í aðalskipulagi flestra sveitarfélaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×