Innlent

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu vegna ófærðar

Snjó hefur haldið áfram að kyngja niður á höfuðborgarsvæðinu síðdegis og hálka er mikil. Björgunarsveitir á suðvesturhorninu eru í viðbragðsstöðu. Færð gæti tekið að spillast og skyggni orðið mjög slæmt í skafrenningi fljótlega, því vindur er að aukast og mjöllin er létt. Sigðurður Þ. Ragnarsson á Veðurstofu Stöðvar 2, segir að vindur gæti verið kominn upp í 13-18 m/sek á áttunda tímanum í kvöld við Faxaflóa, um Snæfellsnes og austur um Hellisheiði. Hvassviðrið geti síðan staðið fram eftir nóttu, en lægt með morgninum.

29 umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík eftir hádegi í dag. Engin slys hafa orðið á fólki.



Að sögn Vegagerðarinnar eru hálkublettir á Reykjanesbraut og hálka eða hálkublettir víða á Suðvesturlandi enda víða éljagangur. Það er vetrarfærð um allt land, þó er helst að vegir séu auðir á Suðausturlandi. Éljagangur er nokkuð víða á Norðausturlandi. Á Austurlandi er víða skafrenningur og það er ófært bæði yfir Breiðdalsheiði og Öxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×