Innlent

Flest fyrirtæki gera upp í dollurum en ekki evrum

MYND/E.Ól

Flest af þeim fyrirtækjum sem veitt hefur verið heimild til að færa bókhald og semja ársreiking í erlendum gjaldmiðli hafa gert upp í dollurum en ekki evrum eftir því sem segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Í lok síðasta árs hafði 167 fyrirtækjum verið veitt heimild til að gera upp í erlendum gjaldmiðli samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 2002 og af þeim höfðu 98 fengið heimild til að gera upp í dollurum. 51 fyrirtæki hefur fengið heimild til reikningsskila í evrum, níu í breskum pundum, þrjú í dönskum krónum, tvö í norskum krónum, tvö í japönskum jenum, eitt í sænskum krónum og eitt í kanadadölum.

Markmið laganna var samkvæmt fjármálaráðuneytinu að gera fyrirtækjum sem væru t.a.m. með meginstarfsemi sína erlendis eða væru hluti erlendrar samstæðu að gera upp á þennan hátt til þess að auðvelda fjárhagslegan samanburð við erlenda keppinauta, draga úr sveiflum í afkomu félaga vegna gengisbreytinga og auðvelda erlendum fyrirtækjasamstæðum að stofna og reka dótturfélög á Íslandi svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×