Innlent

Býður styrk í hússjóð fyrir þriðja sæti á lista Framsóknar

Einn af frambjóðendum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi heitir flokknum tveimur milljónum króna í hússjóð framsóknarfélaganna á Akureyri fái hann þriðja sætið í kosningu um helgina. Stjórnmálafræðingur segir að svona geri menn ekki.

 

Hjörleifur Hallgríms býður sig fram í fyrsta skipti til þings nú. Flokkurinn hefur fjóra þingmenn í kjördæminu og segist hann bjóða milljónirnar tvær til að auka líkurnar á að Akureyringar fái þriðja sætið.

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, segir að Hjörleifur hafi farið yfir strikið með þessu tilboði. Hann hafi eflaust meint vel en líkur megi leiða að því að hann hafi unnið sér meiri skaða en velvild með boði sínu. Í þessu tilviki eigi við setningin. Svona geri maður ekki. Ekki sé hægt að bjóða peninga eða veraldlega umbun í skiptum fyrir atkvæði eða sæti á lista.

 

Hjörleifur tekur skýrt fram að fái hann ekki þriðja sætið muni engir peningar renna til framsóknarfélaganna á Akureyri.

 

Valgerður Sverrisdóttir býður sig fram í fyrsta sætið en nokkrir berjast um annað sætið. Þar af Birkir Jón Jónsson þingmaður. Einnig er slagur um þriðja sætið en framsóknarmenn koma saman á tvöföldu kjördæmisþingi í Mývatnssveit um helgina og stilla þá upp tíu efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×