Innlent

Fékk 250 tonn af loðnu í einu togi

Fjölveiðiskipið Guðmundur Ólafur ÓF veiddi í nótt fyrstu loðnuna sem veiðst hefur hér við land eftir níu mánaða hlé og mikla óvissu um vertíðina í ár.

Aflinn, sem var 250 tonn úr einu togi, fékkst norður af Melrakkasléttu og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem loðna úr tvö þúsund og fjögur árganginum finnst. Hún ætti að bera uppi veiðina í ár samkvæmt því lögmáli að þriggja ára loðna sé veiðistofninn á hverju ári.

Hingað til hafa hvorki fundist seiði né ungloðna úr stofninum hvað þá fullvaxta loðna eins og núna. Tvö hafrannsóknaskip eru á svipuðum slóðum að mæla torfur, sem vart varð við á föstudag, áður en óveður skall á og kom í veg fyrir frekari mælingu þá.

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar tvö í morgun að of snemmt væri að meta árangurinn þannig að hægt verði að gefa út bráðabirgðakvóta fyrir komandi loðnuvertíð. Guðmundur Ólafur ásamt tveimur öðrum loðnuskipum, hafa leyfi til veiða í rannsóknarskyni. Að sögn stýrimanns um borð í Guðmundi Ólafi í morgun er loðnan væn og var Beitir líka kominn með talsvert af loðnu í trollið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×