Innlent

Olíuverð heldur áfram að lækka

Olíuverð hélt áfram að lækka á heimsmarkaði í gær og eru nú ótvírætt að skapast skilyrði til bensínlækkunar hér á landi. Ótti olíufélaganna við neikvæða umræðu í desember viðrist hafa valdið verðstöðvun í meira en mánuð.

Góðar veðurhorfur á þeim landssvæðum, þar sem mest er notað af olíu til húshitunar, benda auk þess til þess að að hún kunni enn að lækka. Ekkert bólar þó á bensínlækkun hér á landi þótt FÍB og fleiri hafi fyrir nokkru talið vera komið svigrúm til að minnsta kosti tveggja krónu lækkunar.

Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að eitthvað mjög óvenjulegt hefur verið á seiði hjá olíufélögunum frá því seint í nóvember. Ekkert þeirra hækkaði bensínverð í desember þótt það ryki um tíma upp úr öllu valdi á heimsmarkaði og að félögin hafi breytt verði sínu 88 sinnum eftir heimsmarkaðsverði á fyrstu ellefu mánuðum ársins sem er oftar en nokkru sinni fyrr. Hvort það hafði einhver áhrif á þessa verðstöðvun í desember, að í mánuðinum var óvenju mikið fjallað um samráðsmál stóru olíufélaganna þriggja, skal ósagt látið, en það hefur verið stefna Atlantsolíu, að verða aldrei fyrst til hækkunar.

Það virðist því sem félögin hafi tekið á sig talsverðan hlut hækkunar á heimsmarkaði í desember. Staða krónu gagnvart dollar er nú alveg álíka og áður en verðstöðvunin hófst og heimsmarkaðsverðið er orðið heldur lægra en þá þannig að nú má raunverulega fara að vænta benslínlækkunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×