Innlent

Stærstu lífeyrissjóðirnir hætta við skerðingar

Tveir Lífeyrissjóðir, Gildi og Sameinaði Lífeyrissjóðurinn hafa ákveðið að fresta málinu til vors og reikna dæmið uppá nýtt, þar sem tekjur fyrir örorku verði framreiknaðar í samræmi við launavísitölu, eins og öryrkjar töldu sanngjarnt, en ekki neysluvísitölu eins og sjóðirnir höfðu áður gert. Þeir útreikningar leiddu til þess að skerða átti eða fella alveg niður örorkulífeyri 2300 félagsmanna.

Lífeyrissjóðurinn Festa er þriðji stærsti Lífeyrissjóður landsins en hann ákveður á fundi í kvöld hvaða leið skuli farin. Kristján Gunnarsson stjórnarformaður sjóðsins á frekar von á því að hætt verði við boðaðar skerðingar. Ef farin verði sú leið að miða tekjurnar við launavísitölu en ekki neysluvísitölu séu skerðingarnar mun minni og ávinningurinn óverulegur. Hann segir þó ljóst að örorkubyrði sjóðsins sé þung og það bitni þá á öðrum sjóðsfélögum, lágtekjufólki og ellilífeyrisþegum.

Kári Arnar Kárason framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands segir stjórnir sjóðanna ekki hafa vald til að hætta við boðaðar skerðingar. Hann segir að stjórn Lífeyrissjóðsins sem og fleiri sjóðir hafi látið vinna fyrir sig lögfræðiálit sem styðji það. Endanleg ákvörðun Lífeyrissjóðs Norðurlands verður tekin á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×