Innlent

Enginn hjá Ríkislögreglustjóra hafi bíl til afnota

MYND/Róbert

Embætti Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er fram að hvorki ríkislögreglustjóri né aðrir starfsmenn embættisins hafa bíla frá embættinu til afnota, hvað þá lúxusbíla, eins og gefið hafi verið til kynna í efnisþættinum „Frá degi til dags", í Fréttablaðinu mánudaginn 8. janúar.

Þar hafi verið fjallað um nýjan bíl lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og sagt að sjálfsagt hefði lögreglustjórinn „...getað valið sér einhvern lúxusbílinn, látið sérútbúa hann í takt við titla og borða og merkt lögreglunni. Það hefur til dæmis þekkst hjá embætti ríkislögreglustjóra."

Í tilkynningunni segir ríkislögreglustjóri að fyrir utan bíla sérsveitarinnar hafi embættið fimm bifreiðar til afnota sem allar séu af Subaru-gerð. Fjórar þessara bifreiða séu af árgerð 2000, ein þeirra er frá árinu 2003.

„Tvær bifreiðanna eru notaðar við almenn störf embættisins, rannsóknardeild ríkislögreglustjóra hefur eina bifreið til afnota og það sama á við um fjarskiptamiðstöð og bílamiðstöð embættisins. Þessar bifreiðar eru notaðar við dagleg störf starfsmanna embættisins bæði á höfuðborgarsvæðinu og á embættisferðum þeirra um landið. Engir stjórnendur innan embættis ríkislögreglustjóra hafa bifreið frá embættinu til afnota og hafa aldrei haft," segir að endingu í yfirlýsingu embættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×