Innlent

Skrifað undir samkomulag vegna fatlaðra og geðfatlaðra

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag þriggja ára samning um málefni fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu. Samningsfjárhæð er rúmir 2,2 milljarðar króna. Ennfremur var skrifað undir samkomulag til eflingar búsetu, dagþjónustu og dagvist geðfatlaðra á Akureyri. Sá samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 95 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ að meginmarkmið samningsins sé að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna í heimabyggð og fella hana sem framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila, færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Síðara samkomulagið felur í sér að Akureyrarbær leggur til fjórar leiguíbúðir fyrir geðfatlaða, starfsemi fyrir þá verður efld á ýmsum sviðum. Einnig verður lagður fram styrkur til byggingar nýs áfangaheimilis/íbúða fyrir geðfatlaða á Akureyri. Heildarframlag félagsmálaráðuneytisins til þessa samkomulags er sem áður segir 95 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×