Innlent

Enn óvíst með rekstur þrotabús Ágústs og Flosa

MYND/Stöð 2

Ekkert liggur enn fyrir um framtíð framkvæmda og starfsmanna byggingarfyrirtækisins Ágústs og Flosa á Ísafirði sem úrskurðað var gjaldþrota í Héraðsdómi Vestfjarða á föstudaginn var.

Sigmundur Guðmunssson, héraðsdómslögmaður á Akureyri og skiptastjóri búsins, sagðist í samtali við fréttastofu hafa átt fundi með starfsmönnum og fyrrverandi eiganda fyrirtækisins um helgina til þess að fá mynd af stöðunni en hann vissi ekki á þessari stundu hversu stórt gjaldþrotið væri.

Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta á föstudag að beiðni Lífeyrissjóðs Vestfjarða en við það misstu á bilinu 20-25 manns vinnuna. Aðspurður um verkefni fyrirtækisins sagði Sigmundur að framkvæmdir við nýbyggingu við Hafnarstræti á Ísafirði yrðu skoðaðar fyrst enda hefði verið búið að gera kaupsamninga vegna íbúða þar. Reiknaði Sigmundur með að mál yrðu farin að skýrast nokkuð í lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×