Innlent

Einn frægasti sonur Íslands látinn

Magnús þýddi meðal annars fornsögur og verk Laxness á ensku og ritaði ýmsar bækur á enska tungu.
Magnús þýddi meðal annars fornsögur og verk Laxness á ensku og ritaði ýmsar bækur á enska tungu. MYND/Vísir

Magnús Magnússon sjónvarpsmaður BBC, rithöfundur og þýðandi, lést að heimili sínu í Skotlandi í gær, 77 ára að aldri.

Magnús var án efa einhver frægasti sonur íslensku þjóðarinnar á erlendri grund. Hann flutti til Skotlands með foreldrum sínum á fyrsta æviári og bjó þar alla tíð. Eftir nám í íslenskum fornbókmenntum sneri hann sér að blaðamennsku og brátt að störfum fyrir breska ríkisútvarpið, þar sem hann stjórnaði spurningaþættinum Master Mind í 25 ár við fádæma vinsældir og uppskar meðal annars æðstu viðurkenningu sem Bretadrottning veitir útlendingum.

Magnús þýddi meðal annars fornsögur og verk Laxness á ensku og ritaði ýmsar bækur á enska tungu. Hann var þó ávallt trúr uppruna sínum, sagðist búa í Skotlandi en eiga heima á Íslandi, enda týni maður sjálfum sjálfum sér ef maður týnir rótunum. Það kom því ekki á óvart að hann var íslenskur ríkisborgari alla ævi.

Það hefur því að vonum yljað honum þegar íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían heiðraði hann sérstaklega fyrir nokkrum árum. Þeir sem til Magnúsar þekktu segja að Mark Tompson, útvarpsstjóri BBC, hafi lýst Magnúsi einkar vel þegar hann heyrði af andláti hans í gærkvöldi, en þá sagði Tompson: Magnús var afar hlýr og mannlegur maður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×