Innlent

Íslendingur lét lífið þegar fallhlífarstökk mistókst

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Vísir
Tuttugu og sjö ára íslenskur karlmaður lét lífið í Ástralíu í gær þegar fallhlífarstökk hans úr þyrlu mistókst.

Maðurinn hafði nokkra reynslu bæði af fallhlífarstökki og svo kölluðu Base-stökki. Hann var staddur á þriggja daga danshátíð í nágrenni Bonalbo sem er um eitt hundrað kílómetra vestur af Lismore í Ástralíu.

Á hátíðinni var boðið upp á fallhlífarstökk úr þyrlu sem maðurinn fór í og stökk hann úr tvö þúsund og fimm hundruð metra hæð. Ástralska dagblaðið The Age hefur eftir lögreglumönnum að svo virðist sem að fallhlíf hans hafi opnast of seint. Þegar hún loks opnaðist hafi hún verið flækt og hrapaði maðurinn til jarðar og skall á tré áður en hann féll á jörðina. Talið er að hann hafi látist samstundis.

Lögreglan á svæðinu rannsakar nú málið. Annar maður stökk á sama tíma og tveir höfðu stökkið fyrr um daginn allir án nokkurra vandræða.

Fréttavefur ástralska blaðsins Sidney Morning Herald greinir frá því að maðurinn hafi verið náinn vinur ástralska Base-stökkvarans, Anthony Boombes, sem lést á síðasta ári eftir að stökkva af ellefu hundruð metra háum kletti í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×