Innlent

Stækka þarf Hvalfjarðargöngin fyrir árið 2012

Umferð um Hvalfjarðargöngin jókst um tæplega tíu prósent á síðasta ári. Talið er að umferð um göngin verði orðin meiri en þau þola árið 2012. Farið er að huga að stækkun ganganna og ættu tillögur að liggja fyrir innan skamms.

Á nýliðnu ári voru farnar tæplega 1,9 milljón ferðir um Hvalfjarðargöngin en það er tæplega tíu prósenta aukning frá árinu 2005. Þetta er næst mesta aukning á umferð á einu ári um göngin frá gerð þeirra.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir að skýra megi aukninguna með fjölgun í bifreiðaflota landsmanna og svo séu Vesturland og Norðurland meira sótt heim en áður. Umferðin er umfram það sem áætlað var í upphafi og segir Gylfi nú svo komið að farið sé að huga að stækkun þeirra.

Að meðaltali fóru um fimm þúsund ökutæki um göngin á hverjum sólarhring á síðasta ári en hámarks umferð um göngin er 7.500 ökutæki á sólarhring. Talið er umferð um gögnin nái þeim fjölda árið 2012 og þá þarf að vera búið að gera ráðstafanir. Fyrir um einu og hálfu ári fór Spölur sem á og rekur göngin að skoða í samráði við Vegagerðina hvernig best sé að stækka göngin. Gylfi á von á því að tillögur um stækkun liggi fljótlega fyrir. Hann telur líklegt að ákveðið verði gera ný göng samhliða þeim sem nú eru og að þau geti verið tilbúin árið 2012.

Sú mikla aukning sem orðið hefur á notkun ganganna hefur áhrif á gjaldið sem greitt er fyrir að aka um þau og segir Gylfi að viðskiptavinir megi eiga von á einhverjum lækkunum á verðinu í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×