Innlent

Um eitthundrað manns á útifundi um Urriðafoss

Útifundur var haldinn við Urriðafoss í Þjórsá í dag. Þar mættu Sunnlendingar til að ræða um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir við fossinn, sem er sá vatnsmesti á landinu. Upphafsmaður fundarins vill að menn staldri við.

Um eitthundrað manns komu saman í snjókomu við Urriðafoss í dag til að ræða um framtíð fossins og fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á svæðinu.

Bjarni Harðarson, blaðamaður og frambjóðandi Framsóknarflokksins, skipulagði fundinn. Með honum vildi hann fá fram umræðu um framkvæmdirnar og áhrif þeirra.

Urriðafossvirkjun er ein þriggja sem verið er að undirbúa í Neðri-Þjórsá. Framkvæmdirnar haldast í heldur við stækkun álvers Alcan í Hafnarfirði því Landsvirkjun hyggst selja Alcan raforkuna vegna stækkunarinnar. Bjarni er ekki sáttur við það og segir að ef á annað borð verði virkjað þá eigi að nýta orkuna á Suðurlandi. Hann segir nauðsynlegt að ekki sé anað að neinu.

Enn á eftir stíga nokkur skref áður en virkjanirnar verða að veruleika. Sveitarfélögin hafa ekki gefið út framkvæmdaleyfi og eftir er að ná samningum við bændur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×