Innlent

30 óku of hratt

Lögreglumaður mundar hraðamælingarbyssuna.
Lögreglumaður mundar hraðamælingarbyssuna. MYND/Hörður Sveinsson

Þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Lögregla segir þetta allmikið, ekki síst í ljósi þess að akstursskilyrði voru ekki góð en flestir ökumenn hægja á sér þegar færðin versnar. Þá voru sömuleiðis fjölmargir árekstrar tilkynntir til lögreglu.

Einn þeirra ökumanna sem var stöðvaður við umferðareftirlit í gær reyndist þegar hafa verið sviptur ökuleyfi. Enginn var hins vegar tekinn fyrir ölvunarakstur og það má eiginlega teljast til tíðinda.

Flest umferðaróhöppin voru minniháttar og því fór betur en á horfðist. Það átti t.d. við um bílveltu á Krýsuvíkurvegi um kvöldmatarleytið í gær. Hálfþrítug kona missti stjórn á bíl sínum sem fór út af veginum og valt eina veltu en endaði á hjólunum. Þá var ekið á liðlega tvítugan pilt í Lækjargötu í nótt en hann virðist hafa sloppið vel. Lögreglan hugðist aka manninum til síns heima en á miðri leið fór hann að æsast mjög og hafði m.a. uppi alvarlegar hótanir. Fór svo að hann var færður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×