Innlent

Gat ekki gefið skynsamlegar skýringar á hvarfi sínu

Maðurinn sem leitað var að í nótt og í morgun kom í leitirnar um klukkan tíu í morgun og gat ekki gefið skynsamlega skýringu á hvarfi sínu.

Það voru björgunarsveitarmenn sem höfðu upp á bíl mannsins fyrir utan íbúðarhús í Hafnarfirði og fannst maðurinn þar inni. Ekkert amaði að honum. Lögreglan segir hann ekki hafa gefið neina ástæðu fyrir hvarfi sínu enda var hann orðinn við skál þegar hann fannst. Væntanlega verður hins vegar talað nánar við hann þegar af honum verður runnið.

Maðurinn sem er rúmlega fertugur fór akandi frá heimili sínu í Hafnarfirði í gærkvöldi til að viðra hunda. Um hálftólfleytið var hann í símasambandi og sagðist vera við Hvaleyrarvatn og á heimleið. Þegar hann skilaði sér ekki í nótt var hafin leit að honum undir morgun.

Um 100 björgunarsveitarmenn frá sjö björgunarsveitum tóku þátt í leitinni auk spor- og leitarhunda. Þyrla Landhelgisgæslunnar var líka byrjuð að leita þegar hann fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×