Innlent

360 milljónir til menningarmála

Akureyrarbær hlýtur 360 milljónir króna í styrk frá menntamálaráðuneytinu til menningarmála næstu þrjú árin. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri undirrituðu samkomulag þessa efnis í dag, en er í raun endurnýjun á samningi sem fyrst var undirritaður árið 1996.

Markmið samningsins sem undirritaður var í dag, er að efla enn frekar hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. Með stuðningi við meginstofnanir á sviði myndlistar, tónlistar og leiklistar vilja samningsaðilar stuðla að því að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs, með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á listasviði. Á samningstímanum verður tekið í notkun nýtt menningarhús sem lýtur að sömu markmiðum.

Samningsaðilar eru sammála um að meginverkefni samningsins séu að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, að styrkja starf Listasafnsins á Akureyri sem meginstoðar myndlistar utan höfuðborgarsvæðisins, að renna enn styrkari stoðum undir starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri, að Amtsbókasafnið geti gegnt hlutverki sínu sem eitt af skylduskilasöfnum í landinu, og að kynna fornleifaverkefnið að Gásum og miðla þeirri þekkingu sem til hefur orðið.

Bæjarstjórn Akureyrar skal gera skriflega samninga við ofangreinda aðila. Í samningum skulu koma fram markmið verkefna og hvaða mælikvarðar verða lagðir til grundvallar þegar árangur þeirra verður metinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×