Innlent

Fundur flugumferðarstjóra stendur enn

Búist er við því að félagsfundur flugumferðarstjóra vegna deilu þeirra við Flugstoðir ohf. standi að minnsta kosti í klukkustund til viðbótar en hann hófst klukkan eitt í dag. Kaffihlé stendur nú yfir en fundurinn er lokaður öðrum en félögum í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.

Upp úr viðræðum Flugstoða og flugumferðarstjóra slitnaði í gærkvöld eftir að efnislegt samkomulag hafði náðst um lífeyrismál á þann veg að flugumferðarstjórar fengju sömu réttindi og þeir höfðu í starfi hjá Flugmálastjórn.

Steytti á því í gærkvöld að Flugstoðir kröfðust þess að undirskrift stjórnarmanna í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra gilti skilyrðislaust án þess að samkomulagið yrði fyrst borið undir fund flugumferðarstjóra. Á það féllust fulltrúar flugumferðarstjóra ekki en flugumferðarstjórar ákveða á fundinum sem nú stendur yfir hvort samkomulagið verður samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×