Innlent

Aldrei minna veiðst af rækju en í fyrra

Rækjuaflinn á nýliðnu ári var aðeins þrjú þúsund tonn, eða minni en nokkru sinni, eftir að íslenskir sjómenn komust á annað borð upp á lagið með að veiða rækju.

Af þessum tæplega þrjú þúsund tonna afla var stór hluti veiddur á Flæmingjagrunni langt utan íslensku lögsögunnar. Þann afla veiddi rækjutogarinn Pétur Jónsson en hann var seldur úr landi á árinu og er þá enginn rækjutogari eftir í íslenska fiskiskipaflotanum.

Kvótinn í fyrra var þrefalt meiri en aflinn. Innfjarðaveiði hefur líka víðast hvar lagst af á Vestfjörðum og á Norðurlandi en nýjustu rannsóknir sýna þó að sumstaðar er farið að örla á rækju aftur þótt hún sé hvergi nærri orðin veiðanleg.

Fyrir tíu árum fór rækjuaflinn hátt í hundrað þúsund tonn þannig að þessi grein sjávarútvegsins er hrunin. Þær örfáu rækjuverksmiðjur, sem enn eru í gangi, byggja að verulegu leyti á innfluttri heilfrystri rækju sem er endurunnin í verksmiðjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×