Innlent

Þinglýstum samningum fjölgaði undir lok árs

MYND/Vilhelm

Þinglýstum kaupsamningum fjölgaði um 1,1 prósent og velta tengd samningunum jókst um 7,5 prósent milli nóvember í fyrra og nýliðins desember. Þetta kemur fram á vef Fasteignamats ríkisins.

635 kaupsamningum um fasteignir var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í desember og nam heildarupphæð veltu 18,5 milljörðum króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var 29,2 milljónir króna. Þegar desember 2006 er borinn saman við desember 2005 fjölgar kaupsamningum um 2,1 prósent og aukning er í veltu um 3,1 prósent.

Greindingardeild Glitnis gerir þróunina á íbúðamarkaði að umtalsefni í Morgunkorni sínu og segir líf hafa færst í markaðinn undir lok árs 2006 flestum að óvörum og merkja hafi mátt vaxandi bjartsýni meðal neytanda um framhaldið.

Greiningardeildin segir enn fremur að margt verði íbúðamarkaðinum erfitt í ár. Mikið af nýju íbúðarhúsnæði sé á leið inn á markaðinn, vextir séu háir og atvinnuleysi aukist með hægari hagvexti. Á móti muni kaupmáttur eflaust aukast áfram og sérstaklega vegna þess að verðbólgan mun hjaðna.

„Heilt á litið virðist fátt benda til stórra sviptinga á íbúðamarkaðinum og að hvorki verði umtalsverð verðhækkun né -lækkun á árinu," segir enn fremur í Morgunkorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×