Innlent

Þykkara launaumslag

Launafólki verður hægara um vik að greiða niður kortareikningana eftir jólin eftir skattalagabreytingar sem tóku gildi um áramótin. Tekjuskattur hefur lækkað um eina prósentu og skattleysismörk hækka úr 78 þúsundum í 90 þúsund. Þá taka einnig gildi sérákvæði um kjör aldraðra og öryrkja.

Persónuafslátturinn hækkar um 30.000 á ári eða um 2.500 á mánuði sem þýðir að skattleysismörkin hækka um 12 þúsund. Tekjuskatturinn er nú kominn niður í 22,75%. Þar ofan á bætist útsvar sveitarfélaganna, þannig að skattprósentan á launaseðlinum verður eftir áramót 35,72%.

Hækkun skattleysismarka hefur mesta þýðingu fyrir almenning í landinu, sérstaklega lágtekjufólk, aldraða og öryrkja. Landssamband eldri borgara sagði hins vegar að ekki væri nógu langt gengið þegar skrifað var undir sáttasamkomulag ASÍ, Samtaka atvinnulífsins og ríkisins. Einar Árnason, hagfræðingur eldri borgara, segir að ef skattleysismörk hefðu fylgt launavísitölu frá því þeim var komið á árið 1988, þá væru þau í kringum 136 þúsund og ekki þyrfti að borga skatt af launum sem væru lægri en sú upphæð.

Síðastliðið sumar samþykktu ASÍ, Samtök atvinnulífsins og ríkið að hækka skattleysismörk í stað þess að lækka tekjuskatt um 2%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×