Innlent

Efast um að krónan lifi til langframa

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur miklar efasemdir um að Íslendingar geti haldið uppi sjálfstæðum gjaldmiðli þegar til lengri tíma er litið. Hann segist enn þeirrar skoðunar að Íslendingar verði aðilar að Evrópusambandinu innan átta ára.

Í hádegisviðtalinu á gamlársdag sagði Halldór að það myndi styrkja norrænt samstarf ef öll Norðurlöndin væru aðilar að Evrópusambandinu, en eins og flestum er kunnugt standa íslendingar og Norðmenn utan sambandins, en Danir, Svíar og Finnar eru aðilar.„Það er enginn vafi á því að samstarfið yrði nánara ef öll ríkin væru aðilar að Evrópusambandinu," sagði Halldór.

Hann er nú orðinn æðsti embættismaður Norðurlandaráðs sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðurlandasamstarfinu. Hann segir aðgang Íslendinga að Evrópusambandinu að miklu leyti eiga sér stað í gegnum Norðurlandasamstarfið. Á ráðherrafundum komi sjónarmið og áherslur landanna fram.

Í formannstíð sinni í Framsóknarflokknum, vildi Halldór ganga lengra í umræðunni um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu en margir samflokksmenn og forystumenn í samstarfsflokknum, Sjálfstæðisflokki, í ríkisstjórn. Í hádegisviðtalinu sagði hann krónuna vera mikinn áhrifavald í þeim efnum.

„Það sem skiptir okkur mestu máli núna að mínu mati og í framtíðinni, er hvernig við getum haldið sjálfstæðum gjaldmiðli í þessari miklu alþjóðavæðingu og frelsi á peningamörkuðum. Er það líklegt að við getum rekið íslensku krónuna til langrar framtíðar? Ég hef miklar efasemdir um það," sagði Halldór.

Halldór segir spurninguna um aðild ekki hvað síst snúast um þetta og ekki hjá þvi komist að gera þetta mál upp og það mun gerast að hans mati á næstu tveimur kjörtímabilum. Hann segist enn standa við yfirlýsingu sína og spádóm frá því hann var forsætisráðherra, að Ísland verði orðið aðili að Evrópusambandinu fyrir árið 2015.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×