Innlent

Meðlimum í Kaþólsku kirkjunni fjölgar mest

Þingvallakirkja.
Þingvallakirkja. MYND/Gunnar

Trúfélögum hefur fjölgað um tæpan helming á fimmtán árum. Skráðum meðlimum í þjóðkirkjunni hefur fækkað jafnt og þétt á þessu tímabili en meðlimum hefur fjölgað langmest í kaþólsku kirkjunni.

Skráðum trúfélögum hér á landi fjölgaði úr fjórtán í tuttugu og sjö á árunum 1991 til 2006.

Félög eins og Búddistafélag Íslands, Baptistakirkjan og Félag Múslima á Íslandi eru meðal þeirra sem stofnuð hafa verið á síðustu fimmtán árum.

Á sama tíma hefur hlutfall þeirra landsmanna sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna fækkað jafnt og þétt. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru árið 1991 um 92% landsmanna í Þjóðkirkjunni samanborið við um 82% árið 2006.

Af einstökum trúfélögum hefur meðlimum fjölgað langmest í Kaþólsku kirkjunni en nú eru 2,4% landsmanna í Kaþólsku kirkjunni samanborið við 1% árið 1991. Flest trúfélög utan Þjóðkirkjunnar eru smá og einungis sex telja fleiri en 1.000 meðlimi. Í Ásatrúarfélaginu voru innan við eitt hundrað meðlimir árið 1991 en þeir eru nú rúmlega eitt þúsund.

Þeim sem eru utan trúfélaga hefur einnig fjölgað eða úr 1,4% árið 1991 í 2,6% 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×