Innlent

Ef Kaupþing gerir upp í evrum verður peningamálastefnan bitlaus

Ef stærsti banki landsins fer að gera upp í evrum þá verður peningamálastefnan hér á landi bitlaus. Þetta er mat fyrrverandi forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ og bankastjóra sem segir það hagsmuni fjármálageirans að Íslendingar taki upp evruna.

Fjárfestingarbankinn Straumur-Burðarás ákvað fyrir skömmu að gera upp í evrum en hann er fyrstur íslenskra banka til þess.

Ef þeim íslenskum fyrirtækjum sem ákveða að fara þessa leið fjölgar hefur það gríðarlega áhrif á peningamálastefnuna hér á landi.

Í Íslandi í dag í gær sagði Tryggvi Þór Herbertsson bankastjóri nýs fjárfestingarbanka Asks Capital að þar á bæ væru menn að velta fyrir sér hvort rétt væri að gera upp í Evrum. Tryggvi sem er fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir ljóst að ef Kaupþing, stærsti bankinn hér á landi, ákveður að gera upp í Evrum verður peningamálastefnan hér á landi um leið gagnslaus. Stýrivextir Seðlabanka Íslands virki þá aðeins á almenning. Tryggvi segir hagsmuni fjármálageirans þá að Íslendingar taki upp evruna og gangi í Evrópusambandið.

Þrátt fyrir tilraunir fréttastofu Stöðvar 2 hefur ekki náðst í forsvarsmenn Kaupþings en ekkert hefur verið gefið út um það hvort að einhver áform séu uppi um að færa uppgjör bankans úr krónum í evrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×