Innlent

Umferðaröryggi og samfélagssjónarmið réðu ákvörðun um Vestfjarðaveg

Flaggað var á Vestfjörðum í dag eftir að umhverfisráðherra samþykkti nýtt stæði Vestfjarðavegar um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð. Jónína Bjartmarz segir að sjónarmið umferðaröryggis og samfélags hafi valdið því að hún ákvað að ganga gegn vilja landeigenda og náttúruverndarsamtaka og leyfa vegagerðina umdeildu.

Þessi niðurstaða þýðir að þjóðvegurinn verður lagður í gegnum mesta birkiskóg Vestfjarða í utanverðum Þorskafirði en verndun skógarins var helsta ástæða þess að Skipulagsstofnun og náttúruverndarsamtök lögðust gegn þessu vegarstæði. Vegagerðin, sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum og sýslumaður Barðarstrandarsýslu kærðu hins vegar úrskurð Skipulagsstofnunar með þeim rökum að vegna umferðaröryggis og vetrarfærðar yrði að leggja veginn yfir mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar til að losna við tvo varasama vegarkafla um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Ráðherra féllst á þeirra sjónarmið en hún segir hálsana beinlínis hættulega. Eftir að fréttir bárust í morgun af úrskurði ráðherra ákvað bæjarstjóri Vesturbyggðar að flaggað skyldi á opinberum byggingum sveitarfélagsins, þar á meðal á Patreksfirði og Bíldudal, og lét þau boð út ganga að íbúar sýndu ánægju sína með sama hætti. Ragnar Jörundsson bæjarstjóri segir að þessi ákvörðun hafi gríðarlega þýðingu, bæði til að stytta leiðina og til að auka öryggi. Athygli vekur hve lengi það hefur dregist hjá ráðherra að útkljá deiluna en lögum samkvæmt átti að úrskurða síðastliðið vor. Jónína Bjartmarz ber fyrir sig viðamikla gagnaöflun en meðal annars gekk hún sjálf um skóginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×