Innlent

Rétttrúnaðarjól í dag

Timur Zolotuskiy er prestur rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi.
Timur Zolotuskiy er prestur rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi. MYND/Valgarður Gíslason

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan fagnar í dag jólum víða um heim, meðal annars á Íslandi. Jólaguðsþjónusta rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi verður haldin í Friðrikskapellu á Valsvellinum í kvöld klukkan 23:00. Messan tekur um tvo og hálfan tíma og á morgun verður jólaball fyrir börnin.

Friðrikskapella verður af þessu tilefni hóflega skreytt að sögn prestsins með íkonamyndum af Jesú og Maríu og heilögum Nikulás, sem er verndari söfnuðarins á Íslandi.

Tveir rétttrúnaðarsöfnuðir eru á Íslandi, annar heyrir undir patríarkann í Moskvu en hinn tilheyrir serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Timur Zolotuskiy er prestur rússneska söfnuðarins á Íslandi en serbneski söfnuðurinn hefur ekki sinn eigin prest og sækir því jólaguðsþjónustu rússneska söfnuðarins í kvöld.

Um það bil 170 eru í rússneska söfnuðinum, flest er það fólk frá Rússlandi en einnig frá Póllandi, Búlgaríu, Georgíu, Úkraínu, Slóvakíu og Eystrasaltslöndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×