Lífið

Vilhjálmur aftur í fang Kate

Vilhjálmur Bretaprins er ástfanginn upp fyrir haus af Kate Middleton. Þau hafa leynt sambandi sínu síðustu þrjá mánuði.
Vilhjálmur Bretaprins er ástfanginn upp fyrir haus af Kate Middleton. Þau hafa leynt sambandi sínu síðustu þrjá mánuði. NordicPhotos/GettyImages

Vilhjálmur Bretaprins var kominn aftur í fang kærustu sinnar, Kate Middleton, aðeins fjórum dögum eftir að þau tilkynntu að þau væru hætt saman. Þau hafa haldið sambandi sínu leyndu síðan í apríl.



Breska þjóðin stóð á öndinni í apríl­mánuði þegar tilkynnt var að Vilhjálmur Bretaprins og unnusta hans, Kate Middleton, hefðu slitið samvistum. Talið hafði verið að þau myndu ganga í hjónaband og hún yrði því drottning landsins þegar Vilhjálmur erfir krúnuna. Nú hefur breska Heimsfrétta­blaðið greint frá því að samband þeirra Vilhjálms og Kate standi enn. Raunar liðu ekki nema fjórir dagar frá því þau hættu saman þar til þau voru komin aftur í fang hvors annars.



„Þetta hefur verið heilmikið mál, að halda sambandinu leyndu og að skipuleggja leynilega ástarfundi þeirra," segir heimildarmaður blaðsins. „Vilhjálmur og Kate voru ósátt og þau hættu saman. Hins vegar liðu ekki nema nokkrir dagar þar til þau voru byrjuð saman aftur." Þar að auki töluðu þau mikið saman í síma fyrstu dagana eftir að þau hættu saman.

Ástæða þess að prinsinn og Kate hafa haldið sambandi sínu leyndu í þrjá mánuði er sú að þau vildu losna við þá pressu sem var á þeim. Mikið hafði verið rætt og ritað um að þau ætluðu að trúlofa sig. „Þau þoldu einfaldlega ekki pressuna. Svo hefði það líka verið hálf hallærislegt að byrja strax saman aftur eftir svo áberandi skilnað."



Á meðan breskir fjölmiðlar skrifuðu mikið um hinn nýja piparsveinalífsstíl Vilhjálms var hann í raun enn ástfanginn af Kate Middleton. Og það jafnvel meira en áður: „Þau eru yfir sig ástfangin, og mun hamingjusamari en þegar heimsbyggðin fylgdist með þeim. Ég held ekki að þau muni nokkurn tímann aftur íhuga að hætta saman."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.