Lífið

Örvar með framhaldssögu um fótbolta

Örvar hefur samið framhaldssöguna Kempur í knattspyrnu fyrir Rafskinnu.
Örvar hefur samið framhaldssöguna Kempur í knattspyrnu fyrir Rafskinnu. fréttablaðið/hörður

Tónlistarmaðurinn Örvar Þóreyjarson Smárason úr hljómsveitinni Múm hefur samið framhaldssöguna Kempur í knattspyrnu. Gerist hún í Vestur-Þýskalandi á sjötta áratugnum og fjallar um hinn drykkfellda fótboltakappa, Ottmar Oberfüss. Inga Birgisdóttir, systir Jónsa úr Sigur Rós, myndskreytir söguna.



Örvar, sem er Valsari, segist vera mikill knattspyrnuáhugamaður og hafi því ákveðið að láta söguna sína gerast í knattspyrnuheiminum til að skemmta sjálfum sér. „Ég er búinn að ganga með það dálítið lengi í maganum að gera framhaldssögu og er með aðra í smíðum sem heitir Svíadrykkjan. Ég hef svo gaman af því að láta fólk bíða," segir Örvar, sem hefur áður gefið út ljóðabók og stuttu skáldsöguna Úfinn strokinn. „Ég er búinn að skoða nokkrar fótboltabækur upp á síðkastið til að vinna undirbúningsvinnuna. Ein heitir Tómas miðframherji. Það er skemmtileg barnabók um knattspyrnu sem ég mæli með."

Auk fótboltasögunnar og Svíadrykkjunnar langar Örvar að gefa út myndskreytt framhaldssögublað sem vonandi lítur dagsins ljós á komandi misserum.



Fyrsti hlutinn af fjórum um Kempur í knattspyrnu verður í DVD-tímaritinu Rafskinnu sem kom út í fyrsta sinn um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.