Innlent

Vilja stofna lýðháskóla að Núpi í Dýrafirði

MYND/Róbert

Ungmennafélag Íslands vill koma á á fót lýðháskóla með umhverfissviði í gamla skólanum að Núpi í Dýrafirði. Fram kemur á vef Bæjarins besta að slíkur skóli yrði starfræktur í samstarfi við systursamtök Ungmennafélagsins í Danmörku sem reka átta lýðháskóla.

Haft er eftir Inga Þór Ágústssyni, svæðifulltrúa UMFÍ á Ísafirði að um nám á háskólastigi yrði að ræða sem yrði nátengt íslensku umhverfi og að skólahúsnæðið sé eins og sérsniðið fyrir slíkan skóla. Ef áhugi sé fyrir hugmyndinni sé jafnvel hægt að innrita fyrstu nemendur strax á næsta ári. Hugmyndin hefur þegar verið lögð fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Núpur í Dýrafirði er fornt höfðingjasetur en á árunum 1907-1992 var starfræktur þar skóli. Hótelrekstur hefur svo verið í byggingunum á síðust árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×