Innlent

FÍB segir meðalálagningu á bensín hafa hækkað um 8,6 prósent

MYND/Reuters
Olíufélögin hækkuðu meðalálagningu á bensín um 8,6 prósent á árinu 2006 samanborið við álagninguna 2005 eftir því sem Félag íslenskra bifreiða eigenda greinir frá. FÍB bendir enn fremur á að íslenskir neytendur hafi að meðaltali borgað ríflega tveimur krónum meira fyrir hvern lítra af bensíni í fyrra en árið 2005 en rúmri krónu meira fyrir dísillítrann.

Í tilkynningu FÍB segir að liðið ár hafi verið tímabil mikilla verðsveiflna. Heimsmarkaðsverð á olíu hafi hækkað verulega fram yfir mitt ár og að auki hafi verið veruleg gengislækkun og miklar gengissveiflur á gengi íslensku krónunnar sem hækkuðu eldsneytisverðið enn frekar.

„Álagningin var há í byrjun síðasta árs en í mars lækkaði álagningin verulega samhliða því að heimsmarkaðsverðið hækkaði og gengi íslensku krónunnar féll gagnvart Bandaríkjadal. Álagningin tók síðan stóran kipp upp á við þegar heimsmarkaðurinn lækkaði ört í ágúst og september en lækkaði aftur í lok árs og liðinn desember var á pari við meðalálagninguna þegar hún var lægst frá mars fram í júlí.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað í byrjun árs þannig að kostnaðarverð á lítra af bensíni fyrstu 10 dagana nú í janúar er tæpum 2 krónum lægra en kostnaðarverðið var í liðnum desembermánuði. Útsöluverð á eldsneyti hefur verið það sama á markaði hér á landi frá því 20. nóvember sl. Algengasta þjónustuverð á bensíni er 117.70 krónur á lítra og 112.70 í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð,“ segir í tilkynningu FÍB.

FÍB bendir á að ódýrasta útsöluverðið á eldsneyti um þessar mundir virðist vera hjá Esso á Geirsgötunni í Reykjavík eða 108,70 krónur á lítra fyrir bensínið og 109,50 fyrir dísillítrann. Segir félagið jafnframt að það valdi vonbrigðum að stórfyrirtæki á neytendamarkaði sem hafi mikil áhrif á afkomu heimilanna í landinu hafi á liðnu ári á tímum hækkandi verðbólgu og óróa á olíumörkuðum hækkað álagningu sína til íslenskra neytenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×