Innlent

Svartur svanur í Vopnafirði

Heimkynni svartra svana eru í Ástralíu. Sá á myndinni er þó líklega ættaður af enskum herragarði.
Heimkynni svartra svana eru í Ástralíu. Sá á myndinni er þó líklega ættaður af enskum herragarði. MYND/bjarki björgólfsson
„Ég hef aldrei séð svona fugl áður,“ segir Bjarki Björgólfsson, áhugaljósmyndari á Vopnafirði.

Bjarki var á ferð við tjörnina sunnan við Hofsárbrú í Vopnafirði um helgina og náði þá mynd af svartsvani, sem er sjaldgæfur hér á landi enda ættaður frá Ástralíu.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir svarta flækinginn þó líkast til ættaðan af enskum herragarði.

„Ríkt fólk þar í landi hefur ógurlega gaman af því að flytja til sín sjaldgæfa fugla. Það er ekki gott fyrir lífríkið,“ segir Jóhann Óli.

Hann segir að vegna þessara flutninga hafi myndast hópur villtra svartra svana í Bretlandseyjum og stundum flækist einn og einn þeirra yfir til Íslands.

Jóhann segist ekki þekkja til neinna dæma um að svartir svanir og hvítir hafi parast þótt þeir fái að slást í hóp þeirra.

Alls eru þekktar sex tegundir svana í heiminum.

Svanurinn var myndaður við Hofsárbrú í Vopnafirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×