Innlent

Sinnaðist út af konu

Áramótagleðin fór úr böndunum í vinnubúðum Impregilo í nótt þegar starfsmaður frá Kína stakk samstarfsmann sinn frá Ítalíu þrisvar sinnum með hnífi. Lögreglu var tilkynnt um atvikið um tvö-leytið í nótt en þetta gerðist í vinnubúðum við aðgöng tvö við Kárahnjúkavirkjun.

Ítalinn særðist ekki alvarlega, hann fékk tvö stungusár á hendur þegar hann bar þær fyrir sig og eitt stungusár á kvið, sem ekki mun þó hafa verið mjög djúpt. Læknir hugaði að sárum hans á staðnum og þótti ekki ástæða til að flytja hann á sjúkrahús.

Árásarmaðurinn var tekinn höndum í nótt og var enn í yfirheyrslu hjá lögreglu rétt fyrir fréttir. Þeim mun hafa sinnast í framhaldi af því að stjakað var við konu sem var þar í gleðskapnum. Atburðarásin er ekki fullkomlega komin á hreint en árásarmaðurinn hefur játað verknaðinn.

Mennirnir vinna báðir við borun í aðgöngum tvö og voru að fagna áramótunum í sal í vinnubúðunum ásamt vinnufélögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×