Innlent

Stór hluti meintra kynferðisbrotamála felldur niður

262 af 380 málum sem bárust ríkissaksóknara vegna meintra kynferðisbrota voru felld niður á árunum 1999-2006. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars Leós Friðrikssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Fram kemur í svari dómsmálaráðherra að málin hafi verið felld niður út frá lögum um meðferð opinberra mála þar sem þau hafa ekki talist líkleg til sakfellingar.

 

 

Alls bárust 845 kærur til lögreglunnar vegna meintra kynferðisbrota á tímabilinu 1999-2006 og fóru 380 þeirra, eða um 44 prósent, áfram til ríkissaksóknara. Í einu máli var hluti felldur niður og ákært að hluta en sjö mál eru enn í rannsókn.

Gefin var út ákæra í 110 þeirra mála sem rötuðu til ríkissaksóknara og var sakfellt í 61 tilviki í héraðsdómi en sýknað í 41. 43 málanna var áfrýjað til Hæstaréttar og þar var sakfellt í 30 tilvikum en sýknað í fjórum. Ódæmt er í átta málum. Tekið er fram í svari dómsmálaráðherra að tölur frá árinu 2006 séu bráðabirgðatölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×