Lífið

Alexandra gengin út

Alexandra Christina skartaði kampavínslituðum kjól þegar hún gekk í það heilaga með ljósmyndaranum Martin Jørgensen
Alexandra Christina skartaði kampavínslituðum kjól þegar hún gekk í það heilaga með ljósmyndaranum Martin Jørgensen

Alexandra Chrstina Mansley, fyrrverandi prinsessa Dana, gekk að eiga ljósmyndarann Martin Jørgensen við hátíðlega athöfn í Øster Egede-kirkjunni að viðstöddum nánum vinum og ættingjum.

Alexendra var klædd í kampavínslitaðan kjól frá Henrik Hviid og virtist njóta hverrar mínútu. Þegar hún kom að kirkjudyrunum brá Alexandra á leik við þá fjölmörgu gesti og gangandi sem biðu eftir að fá að sjá hana og sagði: „Við komum aftur út,“ við mikil hlátrasköll nærstaddra.

Hjónakornin nutu liðsinnis frá prinsunum tveim, hinum sjö ára gamla Nikolai og fjögurra ára gamla Felix, en þá á Alexendra með Jóakim prins. Hann var reyndar víðsfjarri við athöfnina enda hefði það verið í hæsta máta óvenjulegt þrátt fyrir að danskir fjölmiðlar fullyrði að þau séu enn þann dag í dag góðir vinir. Ólíkt því sem var árið 1995 þegar Alexandra gekk kirkjugólfið við konunglega athöfn voru aðalsbornir gestir víðsfjarri og glamúrinn og glysið ekki jafn áberandi. Dönsku blöðunum bar hins vegar saman um að athöfnin hefði verið bæði látlaus og falleg.

Hjónin buðu síðan til glæsilegrar veislu eftir kirkjuna sem haldin var á Jomfruens Egede en þar hélt góðvinur, Mark Petterson, skálarræðu fyrir hin nýgiftu. Til gamans má geta að Petterson er einmitt eiginmaður Miu Egmont Petersen sem eitt sinn var trúlofuð Friðriki krónprins, fyrrverandi mági Alexöndru.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.