Erlent

Þjóðheta Mjanmar - Aung San suu Kyi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Aung San Suu Kyi
Aung San Suu Kyi MYND/AFP

Líkt og Nelson Mandela hefur Aung San Suu Kyi orðið alþjóðlegt tákn hetjulegrar og friðsamlegrar andstöðu undirokunar og kúgunar.

Í langan tíma hefur þessi baráttukona og leiðtogi Lýðræðisflokks landsins verið eina von landa sinna um að tímabil herstjórnarinnar líði einhvern tímann undir lok.

Aung San Suu Kyi er 62 ára. Hún hefur varið 11 af síðustu 18 árum í einhvers konar fangelsum herstjórnarinnar, lengst af í stofufangelsi.

Árið 1991 fékk hún friðarverðlaun Nóbels fyrir viðleitni sína til að koma á lýðræði í landinu. Við athöfnina sagði stjórnarformaður friðarverðlaunanefndarinnar að hún væri framúrskarandi dæmi um vald hinna valdlausu.

Bakgrunnur lýðræðissinnans Vinsældir Aung San Suu Kyi í Myanmar liggja ekki síst í því að hún er dóttir helstu sjálfstæðishetju landsins, Aung San hershöfðingja. Hann var myrtur í júlí árið 1947 einungis hálfu ári áður en landið hlaut sjálfstæði frá Bretlandi. Aung San Suu Kyi var einungis tveggja ára þegar hann dó.
Aung San Suu Kyi á stuðningsmenn víða í heiminum. Hér eru þeir við sendiráð Burma í Manilla á Filippseyjum og krefjast þess að hún verði leyst úr haldi.MYND/AFP

Árið 1960 flutti hún með móður sinni Daw Khin Kyi til Indlands þar sem hún hafði verið tilnefnd sendiherra Burma í Delhi.

Fjórum árum síðar flutti Aung San Suu Kyi til Bretlands og hóf nám í heimspeki við Oxford háskóla. Og þar kynntist hún tilvonandi eignmanni sínum. Hún gerðist ráðsett húsfrú að enskum stíl eftir veru í Japan og Bhutan, og ól upp syni þeirra Michaels, Alexander og Kim. En Burma var alltaf í huga hennar.

Aftur til Burma

Aung San Suu Kyi sneri aftur til Rangoon árið 1988 til að líta eftir fársjúkri móður sinni. Þá var mikið pólitískt umrót í landinu. Þúsundir nemenda, skrifstofufólks og munka mótmæltu á götum úti og kröfðust lýðræðisumbóta. Í ræðu sem hún hélt 26. ágúst það sama ár sagði hún að sem dóttir sjálfstæðishetjunnar hefði hún ekki getað litið framhjá ástandinu. Hún var hvött til að stýra uppreisninni gegn harðstjóranum Ne Win sem þá var við völd.

Undir áhrifum frá Martin Luther King og Mahatma Gandi skipulagði hún fjöldafundi og ferðaðist um landið. Hún kallaði eftir friðsamlegum lýðræðisumbótum og frjálsum kosningum. Mótmælin voru brotin harkalega á bak aftur af hernum, sem tók völd í uppreisn 18. september 1988. Aung San Suu Kyi var sett í stofufangelsi.

Herstjórnin stóð fyrir almennum kosningum í maí árið 1990. Lýðræðisflokkur Aung San Suu Kyi vann örugglega, þrátt fyrir að hún væri sjálf í stofufangelsi og ekki leyft að bjóða sig fram. En herstjórnin neitaði að afhenda flokknum völdin og hefur setið fast við stjórnvölinn síðan.

Stofufangelsi Aung Sun Suu Kyi var leyst úr stofufangelsi í júlí árið 1995 eftir sex ár, en ferðafrelsi hennar var skert. Hún var aftur sett í stofufangelsi í september árið 2000 þegar hún reyndi að ferðast til borgarinnar Mandalay þrátt fyrir ferðabannið.

Árið 2002 var hún leyst úr haldi á ný, en aðeins ári seinna var hún send í almennt fangelsi eftir átök hennar og stuðningsmanna hennar við stuðningsmenn stjórnvalda.

Hún fékk að snúa heim úr fangelsinu eftir móðurlífsuppskurð árið 2003, en var sett í stofufangelsi á ný.

Mótmælendur krefjast þess að Aung San Suu Kyi verði leyst úr haldi.MYND/AFP

Á löngum fangelsistíma hefur Aung San lært og stundað líkamsrækt. Hún hefur hugleitt, æft sig í frönsku og japönsku og slakað á með því að spila Bach á píanó.

Á síðustu árum hefur hún einnig getað hitt aðra meðlimi Lýðræðisflokksins og tekið á móti erlendum diplómötum eins og Razali Ismail erindreka Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði eftir heimsóknina að hún væri áhrifamesta manneskja sem hann hefði nokkurn tíman hitt.

Hún var gjarnan í einangrun fyrstu ár fangelsisvistarinnar og var ekki einu sinni leyft að hitta syni sína tvo eða eiginmanninn, breska háskólamanninn Michael Aris. Hún varð fyrir miklu andlegu áfalli þegar hann lést úr krabbameini í mars árið 1999.

Herstjórnin bauðst til að leyfa henni að ferðast til Bretlands til að vera með manni sínum á dánarbeði hans, en henni fannst hún ekki geta farið af ótta við að vera ekki hleypt aftur inn í landið.

Aung San Suu Kyi hefur oft sagt að fangelsisvistin hafi gert hana enn einbeittari í því að tileinka líf sitt baráttunni fyrir lýðræði í landinu.

Heimildir: BBC, Wikipedia, Times.


Tengdar fréttir

Herstjórnin skýtur að búddamunkum

Hermenn herforingjastjórnarinnar í Myanmar skutu aftur að mómælendum í Rangoon stærstu borg landsins í morgun. Vitni segja einn hafa fallið í jörðina í skothríðinni. Talið er að um 70 þúsund manns mótmæli á götum borgarinnar. Hermennirnir ráðast einnig að fólkinu og berja það með byssusköftum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×