Innlent

Lélegt sílamáfsvarp vísbending um hrun í sandsílastofni og slaka nýliðun þorsks

Flótti sílamáfs frá Reykjavík er vísbending um hrun í sandsílastofninum. Á tveimur árum hefur varppörum fækkað úr 37 þúsund niður í 7 þúsund. Fuglafræðingar telja jafnvel samhengi milli fjölda sílamáva við landið og nýliðunar í þorski.

Þótt sílamáfurinn sé fráleitt vinsæll í borginni þá ætti fólk líklegast frekar að fagna honum en ólmast gegn honum því fjöldinn er í réttu hlutfalli við nýliðun í þorski ef marka má skoðun sumra náttúrufræðinga.

Fuglafræðingur sem Stöð 2 ræddi við í dag segir að sandsíli sé undirstaðan í fæðu sílamáfs á svipaðan hátt og hjá þorski. Því sé hrun í stofni sandsílis jafn afdrifaríkt fyrir sílamáfinn og þorskinn sem er ein mikilvægasta uppistaðan í fiskvinnslu á Íslandi.

Góður árangur í varpi sílamáfs sé þannig sterk vísbending um að þorskur hafi nóg æti.

Fjöldi fugla við strendur Íslands lifir að verulegu leyti á sandsíli. Slæm afkoma sandsílis hefur valdið áföllum í varpi hjá lunda í Eyjum og hjá kríu á nokkrum stöðum á landinu.

Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Reykjaness, var við talningar og rannsóknir á sílamáfi í morgun en hann segir að fuglinn sé nú farinn af Reykjavíkurtjörn og frá læknum í Hafnarfirði. Gunnar segir ljóst að fuglinn hafi komist í æti því hann líti ekki lengur við brauði frá mannfólkinu.

Það eru vissulega góð tíðindi að sandsíli sé farið að finnast í kviði unga í varplandi sílamáfs. Gunnar Þór óttast samt að þetta sandsílaskot sé ekki varanlegt og að varpið í ár sé eins og í fyrra, varla svipur hjá sjón.

Sílamáfur er farfugl en hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og í Afríku á veturna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×