Íslensk húðflúrhátíð verður haldin dagana 8. til 10. júní á skemmtistaðnum Grand Rokk. Á hátíðinni munu húðflúrmeistarar frá Bandaríkjunum, Danmörku og Íslandi bjóða upp á húðflúr fyrir gesti og gangandi en þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin.
„Ég og maðurinn minn erum gífurlegir áhugamenn um húðflúr og við kynntumst svona hátíðum fyrir nokkru. Við ákváðum að prófa að halda svona hátíð í fyrra og hún gekk vonum framar – það komust færri að en vildu svo við ákváðum að endurtaka leikinn,“ segir Linda Mjöll Þorsteinsdóttir, einn af aðstandendum húðflúrhátíðarinnar.
Meðal gesta á hátíðinni verða útsendarar frá Prick-tímaritinu, en sem tileinkað húðflúrlistinni. „Útsendarar frá þeim komu í fyrra og skifuðu um atburðinn og svona,“ segir Linda.
Að sögn Lindu hefur heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitt samþykki sitt fyrir því að skemmtistað sé breytt í húðflúrstofu. „Heilbrigðiseftirlitið er búið að taka út stöðuna og við verðum með sótthreinsunaraðstöðu í tattústofunni hjá Sverri á Laugaveginum,” útskýrir Linda en maður hennar vinnur nú hörðum höndum við að smíða vaska sem komið verður upp á Grand Rokk. „Í fyrra breyttum við Gauknum í eina risastóra húðflúrstofu og nú held ég að við verðum með um fimmtán bása.“