Innlent

Ráðherrar sakaðir um að leyna gögnum

Deilt var á menntamálaráðherra og fjármálaráðherra og þeir sakaðir um að fela gögn tengd frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. við upphaf fyrsta þingfundar nú eftir áramót. Farið var fram á það að málinu yrði frestað.

Til stóð að hefja þriðju umræðu um RÚV-frumvarpið en Mörður Árnason kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og benti á að Fréttablaðið hefði greint frá því að ráðuneyti menntamála og fjármála hefðu átt samskipti við Eftirlitsnefnd EFTA, ESA, um frumvarpið á síðasta ári og alveg fram á þetta ár án þess að þingi hefði verið greint frá því.

Alls væri um níu bréf að ræða og samskipti sem hefðu átt sér stað frá því í maí í fyrra og til 9. janúar í ár. Menntamálanefnd hefði ekki vitað um gögnin og hefði ekki verið látin vita af þeim. Sakaði hann því ráðherrana um að fela gögnin fyrir þingi.

Sagði Mörður að bréfaskiptin hefðu borist nefndarmönnum á miðvikudaginn var og að frumvarpið hefði verið afgreitt úr menntamálanefnd á föstudag án þess að farið hefði verið yfir nægilega yfir gögnin. Forseti Alþingi hefði verið beðinn um að hlutast til um málið svo hægt væri að fara betur yfir bréfaskiptin í nefndinni.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sagðist ekki hafa heimild til að fresta fundum og minnti á að samkomulag hefði náðst um það fyrir jól að fresta þriðju umræðu um RÚV-frumvarpið en að málið yrði tekið upp strax eftir jólin. Henni hefði verið umhugað um að það samkomulag stæðist. Hún mælti því ekki bót að gögnin hefðu borist seint til nefndarmanna en það væri ráðherra að svara fyrir það. Sagði hún að það kynni að þurfa að fara yfir verklagsreglur um samskipti þingnefnda og ráðuneyta.

Bæði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, og Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tóku undir með Merði og sögðu það grafalavarlegan hlut ef ráðherrar hefðu leynt þingið gögnum. Sagði Magnús það ekki bera vott um vandaða málsmeðferð.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, mótmælti því að nefndarmenn hefðu ekki fengið að kynna sér bréfaskipti ráðuneytanna og ESA og sagðist hafa gengið úr skugga um það að nefndarmönnum yrði tilkynnt um það þegar þau bárust. Hafnaði hann því að vinnubrögð meirihluta menntamálanefndar væru forkastanleg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra mótmælti því harðlega að verið væri að leyna þingið gögnum, þau hefðu verið send um leið og beðið hefði verið um það. Athugasemdir ESA í bréfunum snertu ekki breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins og þá hefði framkvæmdastjóri hjá ESA greint frá því að stofnunin hefði ekki frekari athugasemdir við frumvarpið.

Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, sagði afar óheppilegt að gögnin hefðu ekki borist jafnóðum en hún styddi hins vegar málsmeðferð menntamálanefndar. Sagði hún uppákomuna á þingi óheppilega og til þess fallna til að gera málið tortryggilegt. Mótmælti hún orðum um forkastanleg vuinnubrögð

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri - grænna, sagði hins vegar að málið væri vanreifað á lokaspretti þess og mótmælti þeim orðum menntamálaráðherra að athugasemdir ESA sneru ekki að rekstrarformi RÚV. Benti hún enn fremur á að starfsmenn menntamálaráðuneytisins hefðu komið á fund menntamálanefndar og hefði verið í lófa lagið að greina frá bréfasamskiptunum við ESA. Það hefðu þeir ekki gert og á því bæri menntamálaráðherra ábyrgð.

Fjölmargir tóku til máls í umræðunni og færri komust að en vildu og brá því Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á það ráð að taka það upp undir liðnum Um fundarstjórn forseta. Þar var sú krafa stjórnarandstöðunnar ítrekuð að þriðju umræðu um RÚV yrði vísað frá. Vildi Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, jafnvel að því yrði frestað fram yfir kosningar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra steig aftur í pontu og ítrekaði að engum gögnum hefði verið leynt og hvatti forseta Alþingis til þess að halda áfram með málið. Sagði hún það fyrirslátt að telja til ESA-gögnin til að fá málinu frestað og ef það hefðu ekki verið þau hefði stjórnarandstaðan komið fram með önnur atriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×