Innlent

Helmingur kvótans fluttur

Helmingurinn af öllum kvóta Akureyringa flyst til Reykjavíkur þegar Akureyrartogarar Brims verða skráðir í höfuðborginni. Reykjavík verður þá mesti útgerðarbær landsins, miðað við kvóta. Forstjóri Brims segist flýja andúð forystumanna sjómanna í Eyjafirði en þeir segja hann í leit að blóraböggli.

ÚA togararnir Kaldbakur, Sólbakur, Harðbakur og Árbakur verða framvegis skráðir í Reykjavík og bera RE auðkenni en ekki EA. Með þessu flyst skráning á kvóta einnig til höfuðborgarinnar - ein 18 þúsund þorskígildistonn. Með þessu fer helmingurinn af skráðum kvóta Akureyringa skv. tölum Fiskistofu til borgarinnar. Reykjavík skýst þá upp á toppinn á lista sveitarfélaga sem hafa mestan kvóta en Akureyri hrinur úr þriðja sæti niður listann.

Þessi breyting á skráningu veldur engum breytingum á rekstrinum segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims sem á nú þessa togara. Hann segir þó fjandskapur forystu Sjómannafélags Eyjafjarðar sé grunnurinn að þessum flutningi og beinir einkum spjótum sínum að formanni félagsins Konráð Alfreðssyni. Segir Guðmundur að Konráð hafi meðal annars talað um það allt frá því Brim keypti ÚA að ætlunin væri að fara burt með skip og kvóta, og bætir við að Konráð hafi tekist ætlunarverk sitt.

Konráð segir það af og frá að Brim hafi orðið fyrir fjandskap að hálfu félags síns. Hann segir að Guðmundur sé að leita að blóraböggli og fullyrðir að nú sé staðfest það sem hann hafi alltaf haldið fram, þ.e. að ætlunin hafi alltaf verið sú að flytja skip og kvóta burt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×