Innlent

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um tæp þrettán prósent

MYND/Teitur

Erlendum ferðamönnum sem komu hingað til lands í fyrra fjölgaði um tæplega 13 prósent á milli ára samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu. Rúmlega 422 þúsund erlendir gestir komu til landsins í fyrra og fjölgaði þeim um 48 þúsund á milli ára.

Í frétt frá Ferðamálastofu kemur fram að þetta sé mun meiri fjölgun en á árinu þar á undan, þegar fjölgunin nam rétt um 4 prósetum, og raunar ein mesta hlutfalslega fjölgun í komum erlendra gesta á milli ára frá upphafi.

Langflestir ferðamannanna fóru um Keflavíkurflugvöll, eða tæplega 400 þúsund, en þeim fjölgar um rúm tíu prósent milli ára. Með Norrænu komu 10.200 erlendir gestir á árinu 2006 en þeim fjölgaði um ríflega fjórðung. Með öðrum skipum og um aðra millilandaflugvelli en Keflavík er áætlað að 5.900 erlendir ferðamenn hafi komið. Alls gerir þetta 422.280 gesti sem fyrr segir.

Þess er getið að gestir með skemmtiferðaskipum eru ekki taldir með í tölunum þar sem þeir gista ekki yfir nótt. Samkvæmt uppgjöri Cruise Iceland voru gestir skemmtiferðaskipa um 55.000.

Bretar voru fjölmennastir þeirra sem hingað komu á síðasta ári, 67.300 talsins, Bandaríkjamenn voru 55.800 og Þjóðverjar 38.500. Sé litið á skiptinguna eftir markaðssvæðum voru hins vegar gestir frá Norðurlöndunum fjölmennastir, 102.600, og þar með rétt um fjórðungur heildarfjöldans. Mest aukning er frá Bretlandi, Noregi og Danmörku.

Ferðamálastofa vekur athygli á því að mikil fjölgun hafi orðið á ferðamönnum utan háannatíma, sérstaklega á þriðja og fjórða ársfjórðungi síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×