Innlent

Flytur skráningu togara frá Akureyri til Reykjavíkur

Forstjóri útgerðarfélagsins Brims, áður ÚA, er búinn að fá nóg af fjandskap Sjómannafélags Eyjafjarðar og hefur flutt skráningu togara félagsins frá Akureyri til Reykjavíkur. Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar segir hann í leit að blóraböggli og vísar ásökunum á bug.

Þegar Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður eignaðist Útgerðarfélag Akureyringa og skírði fyrirtækið Brim óttuðust margir Akureyringar að félaginu yrði skipt upp og það flutt úr bænum. Nú hefur Brim ákveðið að fjórir Togarar Brims skipti um heimahöfn. Árbakur og Sólbakur hafa þegar fengið einkennisstafnina RE í stað EA og hinir tveir, Kaldbakur og Harðbakur fá ný umdæmisnúmer innan skamms.

Róstur hafa verið milli Sjómannafélags Eyjafjarðar og Brims undanfarið og segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, ástæðuna fyrir breytingunum þá að enginn samstarfsvilji hafi verið hjá Sjómannafélagi Eyjafjarðar að starfa með Brimi. Guðmundur segir að síbreytileg félög lík og Brim þufi á því að halda að sjómannafélög veiti áhöfnum sveigjanleika en svo sé ekki.

Sem dæmi nefnir hann að félagið hafi ítrekað sent útgerðinni kærur fyrir að fara örlítið fyrr út en hvíldarákvæði félagsins kváðu á um. Hann segir jafnframt að frá upphafi hafi útgerðin þurft sitja undir endalausum ásökunum frá formanni Sjómannafélagsins, Konráð Alfreðssyni um að útgerðarfélagið sé á leið með kvótann burt. Hins vegar þýði breytingar á heimahöfnum ekki að félagið sé að flytja burt frá Akureyri.

Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, vísar ásökunum harðlega á bug og segir Guðmund í leit að blóraböggli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×