Innlent

Stefna að því að auka framleiðslu sements um helming

MYND/H.Kr.

Verið er að kanna af fullri alvöru möguleika á því að auka framleiðslugetu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi um allt að fimmtíu prósent til þess að mæta sívaxandi eftirspurn eftir sementi hérlendis. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá verksmiðjunni er undirbúningsvinna vegna þessa er langt komin og skipulögð í samvinnu við FL Smidth & Co í Kaupmannahöfn, framleiðanda búnaðar verksmiðjunnar.

Um 130 þúsund tonn af sementi eru nú framleidd í verksmiðjunni á Akranesi á ári og til þess er notað gjall sem fengið er hérlendis. Hugmyndir eru uppi um að auka framleiðsluna allt upp í 200.000 tonn með því að nýta innflutt gjall.

Enn fremur segir í tilkynningu Sementsverksmiðjunnar að sala á sementi hafi aukist í réttu hlutfalli við aukna þenslu í íslensku efnahagslífi og var sala á sement á nýliðnu ári um 140 þúsund tonn sem er með því allra mesta í sögu verksmiðjunnar.

Bent er á að mikil eftirspurn sé eftir sementi víða í Evrópu og hafi það leitt til verðhækkana. Þannig hafi sementsverð t.d. hækkað um 25 prósent í Danmörku á einu ári. Það er tvöfalt meiri hækkun en orðið hafi á íslensku sementi á sama tímabili.

Nýir eigendur, Íslenskt sement ehf., tóku við rekstri verksmiðjunnar seint á árinu 2003. Nokkur hagnaður varð af fyrirtækinu á árinu 2005 eftir áralangan taprekstur og áætlanir fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir verulega bættri afkomu.

Sementsverksmiðjan á Akranesi er eini framleiðandi íslensks sements. Hún hét áður Sementsverksmiðja ríkisins en árið árið 1993 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og árið 2003 seldi íslenska ríki fyrirtækið. Starfsmenn eru nú rúmlega 40 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×