Skoðun

Fyrstu nemendurnir með fullnaðarpróf í lögfræði

Í dag verða merk tímamót í sögu lagamenntunar á Íslandi, en þá útskrifar Háskólinn í Reykjavík fyrstu lögfræðingana með fullnaðarpróf í lögfræði eftir 5 ára háskólanám. Með þessum áfanga er brotið blað í þessari sögu, enda hefur Háskóli Íslands frá stofnun hans 1911 (Lagaskólinn frá 1908) einn sinnt menntun lögfræðinga í landinu.

Varla verður um það deilt að tilkoma lagadeildar HR hefur valdið straumhvörfum í lagamenntun á Íslandi. Í fyrsta lagi er uppbygging grunnnámsins (BA námsins) í mörgum atriðum frábrugðin því sem var fyrir. Munurinn felst einkum í því að teknar voru í grunnnámið ýmsar greinar sem eingöngu höfðu verið hluti af valnámskeiðum á meistarastigi í HÍ. Má þar nefna Evrópurétt, félagarétt, samkeppnis­rétt, hugverkarétt, verðbréfamarkaðsrétt og þjóðarétt. Aðrar greinar, sem hefðbundið var að líta á sem hluta af grunnnámi, hlutu þá að minnka að umfangi, eða, eftir atvikum, nemendum gefinn kostur á að leggja frekari stund á þær í meistaranámi stæði hugur þeirra til þess.

Hvað sem líður ágreiningi um „rétta“ samsetningu grunnnáms í lögfræði er ljóst að þessar áherslubreytingar voru eðlilegar þegar breytt starfsumhverfi lögfræðinga er haft í huga. Engin rök eru til að ætla, eins og stundum hefur verið gefið í skyn, að þessar breytingar muni á einhvern hátt rýra getu lögfræðinga sem útskrifast frá HR, til að sinna hefðbundnum störfum dómara, lögmanna eða lögfræðinga í stjórnsýslunni. Fremur er ástæða til að ætla hið gagnstæða.

Í öðru lagi varð tilkoma laga­deildar HR einnig til að þess að hvetja þá til sóknar sem fyrir sinntu lagamenntun á Íslandi. Þótt mönnum hafi kannski í fyrstu brugðið við samkeppnina verður ekki um það deilt að heildaráhrif hennar hafa verið jákvæð fyrir alla, ekki síst lagastúdenta á Íslandi. Stundum er því fleygt meðal lögfræðinga, að það besta sem komið hafi fyrir þeirra gömlu deild í áratugi hafi verið tilkoma lagadeildar HR. Áhrifin koma fram í fleiri valkostum fyrir þá sem vilja leggja stund á lögfræði á Íslandi, bættum kennsluháttum og auknu framboði á námskeiðum og fræðafundum og stórauknum metnaði við fræðistörf. Tilkoma lagakennslu við Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri eykur á fjölbreytni þessarar flóru.

Lagadeild Háskólans í Reykjavík er ung að árum. Á skömmum tíma hefur tekist að byggja upp laganám sem að gæðum og umfangi er í fremstu röð á Íslandi. Deildin hefur á að skipa föstum kennurum sem uppfylla kröfur um menntun og framlag til fræðimennsku sem í raun eru meiri en þær sem lengst af hafa verið gerðar við ráðningu í fastar kennarastöður við lagadeild HÍ. Þeir, ásamt fjölda stundakennara með mikla lögfræðilega reynslu, hafa góðar forsendur til að veita nemendum sínum menntun í fremstu röð.

Munu fyrstu nemendurnir sem nú útskrifast með fullnaðarpróf í lögfræði verða því til sönnunar.

Það er þó ekki lokamarkmið að standast innlendan samanburð. Það er aðeins áfangi á leiðinni og hefur honum þegar verið náð. Markmiðið hlýtur auðvitað að vera að byggja upp lagadeild sem stenst alþjóðlegan samanburð, þar sem áhersla verður lögð á að rækta vitund nemenda og fastra kennara um stöðu sína í slíkum samanburði fremur en innlendum. Í því liggja tækifærin til frekari þroska og viðgangs lögfræðinnar á Íslandi. Á þau hefur lagadeild HR sett stefnuna.

Höfundur er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild HR.




Skoðun

Sjá meira


×